TÍMAMÓT
- að snúa aftur til vinnu með trú á eigin getu, raunhæfar væntingar, samkennd og styrkleika að leiðarljósi
Helstu efnisatriði
Markmið námskeiðsins er að undirbúa og valdefla þau sem standa á þeim tímamótum að vera að snúa aftur til vinnu eða eru að nálgast útskrift úr starfsendurhæfingu. Valdeflingin felst í því að auka vitund um styrkleika og bjargráð sem þau búa yfir til að takast á við kvíðavekjandi kveikjur, hindranir og bakslög sem upp geta komið og auka seiglu og álagsþol. Einnig að skerpa á tilgangi vinnunnar og tengja við styrkleika, gildi, lífsgleði, jafnvægi og starfsánægju, ásamt því að vinna með raunhæfar væntingar til sín og vinnustaðarins.
Námskeiðið er hugsað sem viðbót eða brú til að tengja saman þau bjargráð sem hafa verið æfð í endurhæfingunni og hugsanlega erfiðleika sem kunna að koma upp samhliða því að snúa aftur til vinnu.
Nálgunin
Lögð er áhersla á að einstaklingurinn sjálfur hafi skýra sýn og skilning á hverjar hindranirnar hans eru og hvaða bjargráð geta stutt hann við að yfirstíga þær mögulegu hindranir sem fylgja því að snúa aftur til vinnu eftir endurhæfingu. Kortlagning vandans út frá HAM nálgun er því lykilatriði í þeim tilgangi að auka innsæi og heildarsýn einstaklingsins sem og að valdefla. Út frá þeim forsendum þá hefur verið útbúin sérsniðin útgáfa fyrir einstaklinga sem eru að snúa aftur til vinnu eftir starfsendurhæfingu. Þar eru dregnir fram þættir sem þekkt er að hafa áhrif á ferlið í því að snúa aftur á vinnumarkað, s.s. þekktar hindranir (ytri og innri), bjargráð til að yfirstíga þær (ytri og innri), núvitund, samkennd, gildi, væntingar og skýr markmið.
Kennsluform
Áhersla er lögð á reynslunám (experiential learning) þar sem þátttakendur upplifa efnið á eigin skinni í öruggu umhverfi. Á námskeiðinu er fólk leitt í gegnum fjölbreyttar æfingar, auk fræðslu og umræðna.
Kennslugögn
Vinnuhefti fylgir með námskeiðinu, auk annarra kennslugagna sem eru send rafrænt til þátttakenda.
Fyrir hverja
Námskeiðið er fyrir þá sem eru að snúa aftur til vinnu eða eru að nálgast útskrift úr starfsendurhæfingu.
Tími
Námskeiðið er alls 17 klukkustundir að lengd. Fyrstu sex skiptin vara í 2 ½ klst. í senn. Síðustu tvö skiptin eru eftirfylgnitímar sem vara í klst. í senn.
NÆSTU NÁMSKEIÐ
17. sept., í 6 skipti á þriðjud. milli kl. 13.00-15.30,
auk tveggja eftirfylgnitíma
Leiðbeinendur: Anna Dóra og Eygló
31. okt., í 6 skipti á fimmtud. milli kl. 9.30-12.00,
auk tveggja eftirfylgnitíma
Leiðbeinendur: Guðbjörg og Herdís
Skráning og/eða fyrirspurnir
EINGÖNGU Í BOÐI FYRIR ÞJÓNUSTUÞEGA VIRK