NÚVITUND

Núvitund er sú vitund sem skapast við að beina athyglinni með ásetningi, 

á þessu augnabliki, að því sem er, eins og það er, án þess að dæma.

Við fæðumst öll með þessa færni, að vera heilshugar til staðar í augnablikinu og upplifa það eins og það er, án fyrirframgefinna skoðana. Börn nýta þessa færni til hins ítrasta og uppgötva nýja hluti daglega. Þau nota skynfærin til að rannsaka heiminn, -skoða, bragða, lykta, snerta og hlusta. Í núvitundarfræðum er vísað í þessa starfsemi hugans sem „að vera“.

 

Með tímanum og aukinni lífsreynslu hefur hugur okkar safnað saman ógrynni af upplýsingum, greint og flokkað hluti og mótað skoðanir okkar um hvað okkur finnst um þá. Þessi hugarstarfsemi gerir okkur kleift að læra af reynslunni, skipuleggja okkur, bera hluti saman, greina vanda og leita lausna. Hún gerir okkur kleift að þjálfa færni okkar í að gera hina ótrúlegustu hluti án mikillar fyrirhafnar, eins og að lesa, skrifa, keyra og setja þá nánast á „sjálfstýringuna“ hjá okkur. Það er vísað í þessa hugarstarfsemi sem „að gera“.

 

Hugarstarfsemin ,,að gera" nýtist okkur vel í daglegu lífi og starfi, en getur litað allar okkar upplifanir. Með því að leyfa þessari hugarstarfsemi „að gera“ að taka yfir þá getum við endað á að „lifa í höfðinu“ frekar en í eigin lífi þar sem flest allar upplifanir okkar markast af fyrirfram ákveðnum hugmyndum og reynslu. Við horfum án þess að virkilega sjá, hlustum án þess að raunverulega heyra og snertum án þess að finna. Við missum því oft af því undursamlega í okkar daglega lífi eins og brosi, sólarlagi, augntilliti og snertingu.

 

 

Þjálfun í núvitund felst í því að virkja skynfæri okkar aftur, sjá, heyra, bragða, lykta og finna fyrir hlutum eins og þeir eru, nánast eins og við séum að upplifa þá í fyrsta skipti. Með því verðum við aftur forvitin um heiminn, lífið og tilveruna og nýr heimur opnast fyrir okkur. Þar sem við upplifum heiminn eins og hann er í raun og veru og hættum að lifa eingöngu í okkar eigin hugarheimi. Vöknum til meðvitundar um við hvaða aðstæður hjálplegt er að „vera“ með því sem er og við hvaða aðstæður er hjáplegt að „gera“ eitthvað með upplifanir okkar.

Kynnumst þannig landslagi hugans og lærum að skipta um gír frá því að „gera“ í að „vera“ eða öfugt, eftir því sem hvert andartak kallar á. Lærum þannig að vera meðvituð um hvað við erum að gera á meðan við erum að gera það. Hættum að lifa lífinu á sjálfstýringunni og byrjum að lifa lífinu lifandi.  

Hugurinn vinnur með upplifanir
á tvennan hátt: „að vera“ og „að gera“.