top of page

Hvað er núvitund?

Núvitund felst í þeirri meðvitund sem skapast við að beina athyglinni með ásetningi, að því sem er, án þess að dæma. Í daglegu tali þá má segja að núvitund felist í því að vita hvað við erum að gera á meðan við erum að gera það og leyfa því að vera eins og það er. 

Starfsemi hugans er einnig alveg ótrúlega fjölbreytt og viðamikil, hún gerir okkur t.d. kleift að flokka upplýsingar, greina, bera saman, skipuleggja, dagdreyma, skapa og leita lausna. Hún gerir það að verkum að við getum þjálfað færni okkar í að gera flókna hluti án mikillar fyrirhafnar, eins og að lesa, skrifa, keyra og setja þá nánast á „sjálfstýringuna“ hjá okkur. Við tölum um  þessa hugarstarfsemi sem „að gera“. Eins hjálpleg eins og hún er og nýtist okkur í daglegu lífi og starfi þá getur hún litað allar upplifanir okkar. Með því að leyfa þessari hugarstarfsemi „að gera“ að taka yfir þá getum við endað á að „lifa í höfðinu“ frekar en í eigin lífi þar sem flest allar upplifanir okkar litast af fyrirfram ákveðnum hugmyndum, væntingum og fyrri reynslu. Mikilvægur hluti af núvitundarþjálfun felst því í að stíga út úr sjálfstýringunni, tengjast líkamanum og virkja skynfærin okkar, sjá, heyra, bragða, lykta og finna fyrir hlutum eins og þeir eru, nánast eins og við séum að upplifa þá í fyrsta skipti. Með því verðum við aftur forvitin um heiminn, lífið og tilveruna og nýr heimur opnast fyrir okkur. Með þessu getum við upplifað heiminn eins og hann er í raun og veru og hætt að lifa eingöngu í okkar eigin hugarheimi. Kynnast þannig landslagi hugans og læra að skipta um gír frá því að „gera“ í að „vera“ eða öfugt, eftir því hvað sérhvert augnablik kallar á. Hætta að lifa lífinu á sjálfstýringunni og byrja að lifa lífinu lifandi.

 

 

Þar sem núvitund felur að miklu leyti í sér hugarþjálfun þá er mikilvægt að átta sig á hvernig mannshugurinn virkar, þekkja áskoranir hans og hvernig hjálplegast er að styðja við hann og hlúa þannig að aukinni vellíðan og hugarró. 

Þróunarlega séð þá er mannsheilinn víraður með það að markmiði að lifa af og er því ofurnæmur á allar ógnir og hættur. Við þurfum því að auka meðvitund okkar og virkja æðri hugarstarfsemi til að stemma stigu við þessari neikvæða skekkju hugans og þjálfa athyglina svo hún hvíli oftar við það sem við vitum að eykur lífshamingju okkar og vellíðan.  

 

Mannshugurinn hefur jafnframt ríka tilhneigingu til að beina athyglinni að misræminu á milli þess sem er og þess sem við vildum að væri, sem leið til að brúa bilið. Því miður virkar það alveg öfugt, þar sem það að hvíla athyglina á þessu misræmi færir okkur fjær okkur sjálfum og veruleikanum eins og hann er og grefur undan lífshamingju okkar og vellíðan. Það sem meira er, þá tekur þessi tilhneiging hugans dýrmætan tíma og orku frá okkur sem annars gæti farið í að leyfa okkur að gangast við okkur, kynnast okkur eins og við erum og ná aukinni sátt við okkur sjálf og stöðu okkar eins og hún er. Stíga inn í okkur sjálf eins og við erum og inn í alla þá möguleika sem hvert og eitt okkar býr yfir og leyfa þeim að raungerast. Núvitundin styður okkur í að fara í þetta innra ferðalag í átt að auknum þroska og visku, í sátt við og í tengslum við okkur sjálf eins og við erum.    

 

Hugurinn vinnur með upplifanir á tvennan hátt:
„að vera“ og „að gera“.
bottom of page